Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem skipuð er forsvarsmönnum sveitarfélaganna, samþykkti á fundi sínum þann 19. nóvember síðastliðinn að slökkviliðsstjóra væri óheimilt að framlengja greiðslu áhættuálags til slökkviliðsmanna, 15 þúsund krónur á mánuði umfram gildandi kjarasamninga.
Slökkviliðsmenn una þeirri ákvörðun illa, en kjarasamningar þeirra urðu lausir nú um mánaðamótin.
Stjórnin lýsir í bókun sinni yfir „vonbrigðum með að slökkviliðsstjóri hafi ákveðið að bæta sérstökum eingreiðslum umfram gildandi kjarasamninga við kjör slökkviliðsmanna.“ Stjórnin samþykkti jafnframt að slökkviliðsstjóra væri óheimilt að framlengja þessar greiðslur.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir það í fyrsta lagi villandi að talað sé um „eingreiðslu.“ Þetta hafi verið mánaðarleg greiðsla sem væri í takt við það sem lögreglumenn á landinu fengju. Um sé að ræða eins konar áhættuálag.
„Mínir menn hafa verið í takt við lögreglumenn, en það er niðurstaða stjórnar að stoppa það, í raun og veru,“ segir Jón Viðar. Hann bendir á það að lögreglan sé á forræði ríkisins, á meðan slökkviliðin séu á forræði sveitarfélaga. „Þannig að þetta eru tveir samningsaðilar. Ríkið semur fyrir sig og sveitarfélög sig.“
Af bókun stjórnarinnar má ráða að Jón Viðar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að greiða þetta álag. „Þetta er ákvörðun sem ég tek upp, að endurvekja þessa greiðslu hjá okkur, vegna þess að hún var endurvakin hjá lögreglumönnum, og menn hafa verið í takt við þá til lengri tíma. Þetta eru stéttir sem eru í grunninn að vinna sambærileg störf, og hlið við hlið,“ segir Jón.
Sjálfur sat Jón fundinn sem um ræðir. Hann hafi gert grein fyrir sínum sjónarmiðum, en þetta hafi einfaldlega verið niðurstaðan. „Menn skiptust bara á skoðunum, en þetta er sú niðurstaða sem var fengin, og þannig eru hlutirnir núna. Þetta var upplýst ákvörðun,“ segir hann.