Ræðst á næsta sólarhring

Ráðherrar hafa fundað stíft með fulltrúum lífeyrissjóða seinustu daga.
Ráðherrar hafa fundað stíft með fulltrúum lífeyrissjóða seinustu daga. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar lífeyrissjóðanna halda áfram viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skulda heimilanna á fundi sem hefst kl. 10 30 í stjórnarráðinu. Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands lífeyrissjóða, segir að það nmuni ráðast á næsta sólarhring hvort samkomulag næst. 

Arnar segir að nokkur atriði standi enn útaf í viðræðunum við ríkisstjórnina sem eftir væri að útfæra. Spurningin snérist um hvað lífeyrissjóðunum væri heimilt að gera.

Spurður hvort útlínur að samkomulagi lægju fyrir sagði Arnar að svo væri ekki. En þeim málum sem óleyst eru hefur þó fækkað, að sögn hans. „Við erum nær markinu en við vorum í fyrradag. Ég hef  trú á því að það dragi til tíðinda í dag eða í síðasta lagi á morgun,“ segir Arnar.

Að sögn Arnars mun reyna á það á fundinum nú fyrir hádegi hvort menn sjá til lands eða ekki.

Í gærkvöldi héldu lífeyrissjóðirnir fjölmennan fund stjórnarmanna og framkvæmdastjóra sjóðanna þar sem farið var yfir stöðuna og viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru rædd. Veitti fundurinn fulltrúum lífeyrissjóðanna umboð til að halda áfram viðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert