Segja Íslendinga ekki virða leikreglur

Ekki sér fyrir endann á deilunni um makrílveiðarnar.
Ekki sér fyrir endann á deilunni um makrílveiðarnar.

Talsmenn skoskra útvegsmanna gagnrýna Íslendinga harðlega fyrir að hafa gengið út af fundi um stjórn makrílveiða í Osló í seinustu viku. Talsmaður þeirra segir Íslendinga ekki virða leikreglur og setja fram óraunhæfar kröfur um makrílkvóta á næsta ári.

Vefútgáfa skoska dagblaðsins The Press and Journal segir í frétt að Samtök skoskra veiðimanna á uppsjávarfiski (SPFA) hafi í gær brugðist hart við yfirlýsingum Tómasar Heiðars, aðalsamningamanns Íslands. Afstaða Íslendinga hafi gert að engu vonir um að samkomulag næðist um veiðarnar á næsta ári.

Gera átti úrslitatilraun til samkomulags á fundinum í Ósló, sem haldinn var í tengslum við ársfund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar. The Press and Journal hefur eftir Tómasi Heiðari að Norðmenn hafi ekki hvikað frá tilboði þeirra um að hlutur Íslands í makrílveiðunum á næsta ári yrði 3,1% af heildarkvóta. Íslendingar hafi hafnað því sem algerlega óraunhæfu.

„Á þessu ári var meira en ein milljón tonna eða 23% makrílstofnsins innan íslensku lögsögunni í fjóra til fimm mánuði og jók þyngd sína þar um 25%, sem hefur mikil áhrif á aðra mikilvæga fiskistofna og alla fæðukeðjuna í sjónum,“ segir hann. Tómas Heiðar segir skv. frétt the Press and Journal, að Noregur og Evrópusambandið virðist þurfa meiri tíma til að fallast sanngjarnan hlut Íslands í veiðunum.

Ian Gatt, framkvæmdastjóri SPFA, segir Íslendinga stunda ofveiði og haft er eftir talsmanni stjórnvalda í Skotlandi að það hafi valdið miklum vornbrigðum að fulltrúar Íslands hafi gengið út af fundinum í Osló en allir aðrir hafi verið reiðubúnir að reyna að ná skynsamlegu samkomulagi.

Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið halda viðræðum um makrílveiðarnar áfram í Kaupmannahöfn í næstu viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert