Skýrsla umbótanefndar kynnt á laugardag

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík mbl.is/Ómar Óskarsson

Skýrsla og tillögur umbótanefndar Samfylkingarinnar eru meginefni fimmta  flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar á árinu sem verður haldinn laugardaginn 4. desember á Hótel Loftleiðum. Tillögur nefndarinnar verða kynntar í upphafi fundarins af verkstjórn umbótanefndar.

Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar setur fundinn kl. 11.00 og í kjölfarið tekur Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar til máls og fer yfir næstu skref í umbótastarfi flokksins.

Að því loknu mun verkstjórn umbótanefndar, þau Ásgeir Beinteinsson,  Hólmfríður Sveinsdóttir, Jón Ólafsson og  Kolbrún Benediktsdóttir, kynna tillögur nefndarinnar. Eftir hádegishlé verður unnið í 10 manna hópum á borðum þar sem leitað verður svara við því hvernig best megi tryggja vandaða meðferð tillagna umbótanefndar.

Að  því loknu flytur formaður flokksins Jóhanna Sigurðardóttir ræðu sem ber yfirskriftina Betri stjórnmál – ábyrgð Samfylkingarinnar. Síðan taka við  almennar umræður. Stefnt er að fundarlokum kl. 15.30, segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert