Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagðist telja að aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna ættu að geta nýst mörgum. Eins væri mikilvægt að með þeim væri stefnt að því að hraða málsmeðferð.
Gylfi sagði að ASÍ hefði lengi talað fyrir því að einfalda málsmeðferð hjá þeim sem fara í greiðsluaðlögun þannig að fólk fái fyrr úrlausn mála.
„Við fögnum því að fallið er frá áformuðum skerðingum á vaxtabótum, en ASÍ gerði strax í águst athugasemd við þau. Síðan er gert ráð fyrir að taka upp sértækar bætur sem gagnast mörgum, sérstaklega þeim eru mjög skuldsettir. Ég tel því að þarna sé komin umgjörð sem eigi að geta hraðað frágangi mála en jafnframt beint fjármunum til þeirra sem eru í verulegum greiðsluvandræðum.“
Gylfi sagðist vonast eftir að þetta gæti greitt fyrir kjarasamningum. Það hefði legið fyrir að á meðan þessir hlutir voru óleystir myndi það hafa áhrif á afstöðu félagsmanna í ASÍ. „Okkar félagar eru í vanda og ef tekst ekki að fá úrlausn með einhverri svona aðkomu þá þarf að halla sér að einhverju öðru. Ég held því að þetta hjálpi til.“
Gylfi sagði að ASÍ hefði alltaf lagt áherslu á að afskrifa ætti lán til einstaklinga sem séu með lán langt yfir verðmæti eigna. Þetta væri hvort eð er tapað fé. Hann sagði að allflestir væru að glíma við skuldir sem fjallað væri um í fyrsta lið aðgerðanna. Það væri í undantekningartilvikum að fólk væri að glíma við skuldabyrgði sem næmi tugum milljóna yfir verðmæti fasteigna. Í slíkum tilvikum þyrfti að koma til sérstækar aðgerðir.