Seltjarnarnes og Mosfellsbær ætla að hækka útsvar á næsta ári, líkt og Reykjavíkurborg hefur ákveðið að gera. Eftir þessar breytingar verður Garðabær með lægstu útsvarsprósentu á höfuðborgarsvæðinu eða 12,46%.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir að útsvarstekjur bæjarins hafi dregist verulega saman vegna samdráttar í tekjum fólks og vegna þess að hágreiðendur hafi flutt á brott úr sveitarfélaginu.
Um 80% af öllum sveitarfélögum eru með útsvarsprósentu í hámarki, eða 13,28%. Fjögur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa svigrúm til að hækka útsvar, Reykjavík, Seltjarnarnes, Garðabær og Mosfellsbær. Öll nema Garðabær ætla að hækka útsvar. Þá hefur Sandgerðisbær ákveðið að hækka útsvarið.
Seltjarnarnes hefur verið í hópi sveitarfélaga sem eru með lægst útsvar, en nú hækkar útsvarið úr 12,1% í 12,98%. Meiri- og minnihluti samþykktu samhljóða að vísa fjárhagsáætluninni til annarrar umræðu en einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lýsti sig andvígan útsvarshækkun.