Borgarráð Reykjavíkur staðfesti í gær þá niðurstöðu umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar að synja ósk frá íbúa við Hjallaveg í Reykjavík um að halda fjórar svonefndar landnámshænur.
Borgarráð bendir samt á, að hænur séu leyfðar innan borgarmarkanna, svo sem á Kjalarnesi og efst í Seljahverfi. Þá beindi borgarráð því til nýrrar heilbrigðisnefndar að kanna hvort ástæða sé til að taka samþykktir um búfjárhald og gæludýrahald til endurskoðunar eða leyfa aukið dýrahald á völdum svæðum í borginni með breytingum á skipulagi.
Umhverfis- og samgönguráð synjaði ósk hænueigandans í byrjun nóvember en lét þá bóka, að hún fagnaði því að íbúar borgarinnar vilji stuðla að sjálfbærum lífsháttum og fjölbreyttu dýralífi í borginni. Slíkt verði hinsvegar að gerast í sátt og samlyndi við aðra borgarbúa og samkvæmt þeim reglum sem gilda um búfénað innan borgarmarkanna.
„Ráðið getur ekki veitt umbeðið leyfi þar
sem skipulags- og byggingasvið hefur gefið neikvæða umsögn og ekki
virðist sátt hjá nágrönnum um hina fiðruðu íbúa,“ segir í afgreiðslu ráðsins.