Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í dag að hann vonaðist til að ríkið væri hársbreidd frá því að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um fjármögnun ýmissa stórframkvæmda á næstu árum og vonandi verði gengið frá því eftir helgi.
„Þá er þetta að verða býsna myndarlegur jólapakki," sagði Steingrímur og vísaði til þess samkomulags, sem náðst hefur um aðgerðir vegna skuldavanda heimila. Fram kom að í burðarliðnum er einnig samkomulag, sem snýr að skuldahreinsun lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Steingrímur sagði að þær aðgerðir, sem nú hefur orðið samkomulag um, styðji hver aðra og heildaráhrifin verði miklu meiri og jákvæðari en áhrifin af hverri aðgerð fyrir sig.
Ljóst væri að ríkið tæki á sig umtalsverðar byrðar umfram það sem fyrir lá að þyrfti að gera vegna stöðu Íbúðalánasjóðs.