Kostnaður banka og sparisjóða vegna þeirra aðgerða, sem samið var um í dag og vegna frumvarps um gengistryggð lán, sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, er um 90 milljarðar króna.
Þetta kom fram í máli Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, þegar skrifað var undir samkomulag um aðgerðir vegna skuldavanda. Sagði Guðjón, að um væri að ræða mikilvægt skref sem ætti að hjálpa heimilum og mikilvægt að allir væru komnir að borðinu.
Guðjón sagði að vissulega væri þetta mikill kostnaður fyrir fjármálakerfið en samkomulagið tryggði jafnframt, að komnar væru fram allar þær lausnir almenningi standa til boða. Mikilvægt væri nú að landsmenn verði duglegir að leita til banka og sparisjóði vegna sinna mála.
Guðjón sagði, að samkomulagið næði einnig til annarra lánveitenda en banka og sparisjóða, þar á meðal kortafyrirtækja og eignaleiga. Einnig næði það til ábyrgðarmanna í tengslum við sérstaka skuldaaðlögum.
Þá sagði Guðjón, að fjármálafyrirtækin hefðu verið í viðræðum við stjórnvöld um útfærslu á lausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þær viðræður væru á lokaspretti, en slíkt samkomulag hefði mikil áhrif á tugþúsundir heimila.