Ríkið leiðrétti ofríki Bónuss

Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Kosts.
Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Kosts. mbl.is/Golli

Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Kosts, segir erfitt að sjá aðra leið en þá að ríkið grípi inn í og leiðrétti stöðu framleiðenda og kaupmanna undir ofríki Bónuss. Bónus beiti markaðsráðandi stöðu sinni til þess að kúga framleiðendur og samkeppnisaðila.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jóni, fyrir hönd starfsmanna Kosts, vegna verðkannana ASÍ. Forsvarsmenn verslunarinnar telja hana ekki hafa notið sannmælis í könnunum hingað til. Þar til vinnulag við gerð kannana hafi verið endurskoðað sjái Kostur ekki ástæðu til þess að taka þátt í þeim.

Þær vörur sem valdar eru til að bera saman henti ekki „nýbreytni sem Kostur hefur komið með í vöruúrvali.“

Jón segir vandann þó ekki einskorðast við „gallaðar verðkannanir.“ Samkeppnisstaða á matvörumarkaði sé skökk, og þar sé markaðsráðandi stöðu Bónuss um að kenna. „[Bónus] beitir henni óspar til að kúga bæði framleiðendur og til að boða öðrum kaupmönnum út af markaðnum. Sem dæmi má nefna að innkaupsverðið á 1 lítra af nýmjólk sem Kostur greiðir Mjólkursamsölunni er 101 kr. með virðisaukaskatti, en verðið á sömu vöru hjá Bónus er 98 kr.“

„Það sér hver maður að við þetta verður ekki búið til lengdar, nema að Íslendingar vilji búa við einokunarverslun til framtíðar,“ segir í yfirlýsingunni. „Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða og tryggja að nýir aðilar geti dafnað við hlið Bónuss. Neytendur verða að hafa raunhæft val. Það er engum auðvelt sem starfar í viðskiptum að mæla með því að ríkið beiti handafli og brjóti upp fyrirtæki. En ef Bónus breytir ekki starfsaðferðum sínum og heldur áfram misbeita markaðsráðandi stöðu sinni gegn hagsmunum neytenda þá er erfitt að sjá að það sé nokkur önnur leið en að ríkið grípi inn í og leiðrétti þá óheilbrigðu samkeppnisstöðu sem framleiðendur og kaupmenn búa við undir ofríki Bónuss.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert