Töfin kostaði milljarða

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Sá vandi sem við er að glíma er orðinn stærri vegna þess að á honum hefur ekki verið tekið fyrr, þrátt fyrir ítrekuð loforð,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til handa skuldsettum heimilum. Seinagangur hafi kostað þjóðarbúið milljarða.

Bjarni segir ýmislegt jákvætt við tillögurnar sem komi þó of seint. 

„Þetta ríkisstjórnarsamstarf er að verða tveggja ára gamalt og var myndað meðal annars til að taka á þessu vanda. Þegar aðgerðir voru kynntar í mars á þessu ári var því sérstaklega lýst yfir að það væri búið að ná utan um vandann. Það var mikið ofmat. Margt af því sem er verið að kynna til sögunnar í tillögunum núna er jákvætt og það er í þeim anda sem við Sjálfstæðismenn höfum talað fyrir á þinginu.

Þegar ríkisstjórnin kynnti skerðingar á vaxtabótum í fjárlagafrumvarpinu að þá sögðum við að styrkja þyrfti vaxtabótakerfið. Hún er nú hætt við áform sín um að skerða vaxtabæturnar.“

Rétt að styrkja húsleigubótakerfið

Bjarni víkur einnig að húsaleigukerfinu. 

„Við sögðum að það þyrfti að styrkja húsaleigubótakerfið. Þau höfðu uppi áform um að skerða húsaleigubætur en hafa nú hætt við það líka. Vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið eru heppileg til þess að ná til þeirra sem eru í greiðsluvanda. Vegna skuldavandans er verið að útvíkka og gera aðganginn greiðari að því að fá skuldir felldar niður. Það er mjög mikilvægt af því að það hefur sýnt sig að alltof fáir hafa nýtt sér skuldaaðlögun hjá bönkunum.

Það er mjög mikilvægt að það úrræði skuli hafa verið gert aðgengilegra. Ég er jákvæður gagnvart því að hér sé verið að taka með markvissari hætti á vandamálinu. Það mun taka nokkra daga á að átta sig á því að hve miklu leyti þessar aðgerðir munu duga til að ná utan um vandann.“

Úrræðin voru of flókin


- Telurðu því að ríkisstjórnin hefði getað gripið til þessara úrræða fyrr?

„Hún hefði fyrir löngu síðan átt að sjá þetta. Við Sjálfstæðismenn höfum haldið uppi látlausri gagnrýni um að úrræðin væru of flókin og að menn þyrftu að fara um nálarauga til þess að geta fengið felldar niður skuldir. Þetta höfum við bent á í heild ár og rúmlega það og á það hefur ekki verið hlustað.

Við höfum sætt mikilli gagnrýni frá ríkisstjórninni fyrir okkar málflutning. En nú er það loksins viðurkennt að það þarf að greiða fyrir þessum úrræðum, þ.e.a.s. að rýmka þau og gera aðgengilegri fyrir fleiri til að þau komi að notum.“

Hefur dregið þróttinn úr efnahagslífinu

- Hvað telurðu að þessi töf hafi kostað?


„Þessi töf hefur dregið úr efnahagsbatanum í landinu vegna þess að óvissan sem hefur fylgt fjárlagslegri stöðu heimilanna hefur dregið þróttinn úr samfélaginu.“

- Telurðu að kostnaðurinn við þessa töf hlaupi á milljörðum?

„Já. Við höfum séð að viðsnúningurinn í samfélaginu hefur látið á sér standa. Það er alveg skýrt að með því að koma með ófullnægjandi aðgerðir fram til þessa hefur efnahagsbatanum verið seinkað. Endurskipulagning á fjárhag heimilanna er mikilvægur liður í því að koma hlutunum í eðlilegt horf í samfélaginu.“
 
Bjarni telur það hafa verið rétt af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara ekki leið flatrar niðurfellingar á skuldum.
 
„Ég tel að hugmyndir um almenna flata niðurfellingu hafi ekki gengið upp og ég tel að það hafi verið rétt að fara sértækari leið en þá er einmitt svo mikilvægt að aðgengi að slíkum úrræðum sé greiðara. Það er margt í þessu sem slær mig ágætlega en það að hve miklu leyti þetta leysir vandann og nær utan um er ekki gott að segja á þessari stundu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert