Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að tímabundin vaxtaniðurgreiðsla sé áhugaverðust þeirra aðgerða vegna skulda heimilanna, sem kynntar voru í morgun. Enn sé óútskýrt hvernig eigi að framkvæma hana og fjármagna.
Sigmundur Davíð tekur fram að honum hafi ekki gefist tóm til að fara nákvæmlega í saumana á aðgerðunum en fljótt á litið sé samkomulagið um vaxtaniðurgreiðslu áhugaverðast. Annað hafi að mestu leyti komið fram áður.
„Ég átta mig ekki á því hvort ríkið er þarna að fara að fjármagna vaxtaniðurgreiðsluna um 6 milljarða á ári vegna þess að þarna segir að ríkisstjórnin muni í samstarfi við aðila samkomulagsins leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessi útgjöld. Það er eins og að ekki sé búið að semja um það. Það er óheppilegt ef ekki er búið að semja um hvernig menn ætla að fjármagna þá aðgerð sem sætir mestum tíðindum í þessum tillögum,“ segir hann.
Sigmundur Davíð bendir einnig á að menn hafi rekið sig á það aftur og aftur að það hversu flóknar lausnirnar hafa verið fram að þessu, hafi í sjálfu sér verið stór hluti vandans. „Þegar skuldavandinn er svona víðtækur þá er erfitt að ætla að leysa það með flóknum aðgerðum því fara þarf í saumana á hverju dæmi fyrir sig og meta hverjar af þessum 50 aðgerðum sem forsætisráðherra talaði um, henti best eða hvaða blanda þeirra. Ég hef mestar áhyggjur af flækjustiginu,“ segir hann.
„Ég vona að menn séu ekki að nota tækifærið núna til að láta líta út fyrir að þeir peningar sem þegar hafa tapast, óhjákvæmilegt var að afskrifa og er jafnvel búið að afskrifa, séu einhver ný útgjöld. Menn segi þá sem svo að það sé verið að afskrifa þetta fyrir ríkið eða m.ö.o. að bankar eða fjármálastofnanirnar noti tækifærið til þess að láta líta út fyrir að það sem þegar hefur tapast hafi ekki verið tapað en sé fært niður núna að tilstuðlan ríkisins,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur.