Viðskiptavinir sýni biðlund

Viðskiptavinir banka og annarra fjármálafyrirtækja eru beðnir um að sýna biðlund næstu daga meðan verið er að útfæra framkvæmd samkomulags um aðgerðir vegna skulda heimilanna að því er fram kemur í frétt frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Unnið verði hratt og niðurstaðan kynnt á allra næstu dögum.

Í fréttatilkynningu segjast Samtök fjármálafyrirtækja telja afar mikilvægt að samkomulagið hafi náðst.

„Þrotlaus vinna hefur staðið vikum saman til að finna mögulega lausn sem væri í senn raunhæf fyrir fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði en að sama skapi tæki á vandanum í eitt skipti fyrir öll. Fjármálafyrirtækin hafa þegar um nokkurt skeið boðið upp á margvíslegar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimilanna. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldur hafa þegar nýtt sér þessi úrræði, sem hefur meðal annars leitt til þess að 22 milljarðar króna hafa verið afskrifaðir af fasteignaveðlánum heimilanna.

Viljayfirlýsingin sem nú hefur verið undirrituð og byggir á samkomulagi fjármálafyrirtækja, ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna tekur til enn frekari aðgerða á þessu sviði. Einstök aðildarfélög SFF munu nú hið allra fyrsta útfæra þessar leiðir og hvetja viðskiptavini sín til að leita til síns lánveitanda um úrlausn sinna mála,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert