Vilja skipa umbótanefnd

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu til á fundi borgarráðs í gær, að stofnuð verði umbótanefnd þriggja óháðra sérfræðinga, sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Samkvæmt tillögunni, sem var frestað, á nefndin að draga fram lærdóma og leggja fram tillögur að þeim breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi sem hún telur þörf á.

Nefndin á m.a. að leggja mat á fjárhagsleg áhrif af hruninu fyrir fjárhag borgarsjóðs og fyrirtæki borgarinnar. Þá á hún að fjalla sérstaklega um þau svið í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni og hætta getur verið á hagsmunaárekstrum, s.s. lóðaúthlutanir, lóðaskil, styrkveitingar, þjónustu- og verksamninga, innkaup og eignasölu.

Umbótanefndin á að gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál ef grunur vaknar við úttekt nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til borgarstjórnar.  

Samkvæmt tillögunni á lokaskýrsla nefndarinnar að liggja fyrir ekki síðar en 15. september á næsta ári.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert