Alvarleg mistök í styrkjamálum

Þingmenn Samfylkingarinnar á fundi.
Þingmenn Samfylkingarinnar á fundi. mbl.is/Árni Sæberg

Samfylkingin gerði alvarleg mistök með því að leyfa málum að þróast í það horf að kostnaðarsöm kosningabarátta sé forsenda þess að ná sæti ofarlega á framboðslista, segir í skýrslu Umbótanefndar flokksins. Setja þurfi þröngar reglur sem koma í veg fyrir að flokkurinn vinni gegn sjálfum sér.

Þetta kemur fram í skýrslu Umbótanefndarinnar, sem nú er til umræðu á flokkstjórnarfundi flokksins á Hótel Loftleiðum.

Í skýrslunni segir að styrkir fyrirtækja til flokksins, eða einstaklinga innan hans, dragi úr trúverðugleika flokksins vegna þeirra hagsmunatengsla „sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra styrkja.“

Nefndin harmar þá þróun sem átt hefur sér stað í styrkjamálum. „Þegar sú staða kemur upp að einstakir fulltrúar flokksins verða fyrir alvarlegri og réttmætri gagnrýni vegna fjáröflunar sinnar, án þess þó að þeir hafi á nokkurn hátt sniðgengið reglur flokksins, sýnir það að reglurnar þarf að endurskoða.“

Lagt er til, auk reglusetningar, að Samfylkingin geri upp styrkjamál sín á trúverðugan hátt. Flokkurinn eigi að leggja áherslu á að „safna litlu fé frá mörgum, ekki miklu fé frá fáum.“ Jafnframt eigi að banna keyptar auglýsingar í prófkjörsbaráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert