Neil Klopfenstein sem vísað er til í leyniskjölum WikiLeaks sem Fréttablaðið hefur undir höndum var skiptinemi á Íslandi á áttunda áratugnum. Í leyniskjölunum er vísað til til orða Klopfenstein um að menn undrist að Steingrímur J. Sigfússon skuli hafa verið „að sanna sig sem alvarlegur og ábyrgur fjármálaráðherra.
Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu árið 2007 eftir að Klopfenstein kom til starfa hér á landi sem næstráðandi í sendiráði Bandaríkjanna kom fram að eftir að hafa dvalið hér á landi sem skiptinemi fór Klopfenstein norður í land, bjó á Gunnarsstöðum í Þistilfirði í nokkrar vikur. Húsráðendur þar voru Sigfús A. Jóhannsson og Sigríður Jóhannesdóttir en sonur þeirra er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur var sjálfur skiptinemi á Nýja-Sjálandi þetta ár en Klopfenstein kynntist honum þó og ber honum vel söguna í viðtali við Morgunblaðið árið 2007, segir að það sé það frábæra við það að búa í lýðræðisríki að menn þurfi ekki alltaf að vera sammála í stjórnmálum til að ná saman!
„Það var mjög skemmtilegt að búa á Gunnarsstöðum," segir Klopfenstein og bætir svo við: "Það var eins og að hverfa aftur til Íslands eins og það var í gamla daga.
Af því að ég var sjálfur bóndastrákur að upplagi þá höfðu bændurnir í sveitinni mikinn áhuga á að fá mig í heimsókn til að heyra um landbúnaðinn heima. Ég fór því á bæina – og hér bregður Klopfenstein aftur fyrir sig íslenskunni – "og fékk ástarpunga og kaffi og kleinur og annað þess háttar."
Hann var ekki eins hrifinn af morgunmatnum sem var á boðstólum á Gunnarsstöðum.
„Þau borðuðu súrt slátur með hafragraut á hverjum morgni!
Ég á býsna auðvelt með að borða íslenskan mat, ég borða jafnvel svið þó ég sé ekki mikill aðdáandi. En súrt slátur með hafragraut var eitt af því fáa sem ég gat bara ekki borðað.
Í frétt Fréttablaðsins í dag segir:
„Sumum til undrunar er Sigfússon að sanna sig sem alvarlegur og ábyrgur fjármálaráðherra," segir í skýrslu Neils Klopfenstein sendiráðunauts í bandaríska sendiráðinu 4. júní 2009. Daginn áður átti Steingrímur J. Sigfússon fund með Klopfenstein og ræddi stöðu ýmissa lykilmála á Íslandi.
„Þótt margir í flokki hans hafi frá byrjun verið tortryggnir í garð lánsins frá AGS hefur ráðherrann við ýmis tækifæri viðurkennt mikilvægi AGS-pakkans. Sigfússon hefur staðist (sennilega gnístandi tönnum) flestar freistingar til að skella skuldinni af núverandi kreppu alfarið á öfgar kapítalismans," segir í skýrslunni.
Fram kemur að bandarísku sendiráðsstarfsmennirnir efist um túlkun Steingríms á framgangi viðræðna um Icesave. Breski sendiherrann hafi dregið upp mun dekkri mynd af þeim í viðræðum. Hann segði meðal annars að þeir hefðu uppi barnalegar áætlanir um endurgreiðslu Icesave.Viðtalið við Klopfenstein í Morgunblaðinu 30. júlí 2007 í heild