„Við erum ekki kát með þetta. Það er ekki verið að taka á forsendubrestinum sem varð heldur er fyrst og fremst verið að viðurkenna óinnheimtanlegan kostnað lánakerfisins. Fólk er skilið eftir yfirskuldsett. Það á enn að ganga að eigum fólks.“
Þannig mælir Friðrik Ó. Friðriksson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, um aðgerðir í þágu skuldara.
„Við sjáum ekki að þetta muni skapa skilyrði til sátta. Það er ekki verið að taka á réttlætissjónarmiðinu í stöðunni heldur eingöngu verið að viðurkenna óinnheimtanlegan kostnað fjármálafyrirtækjanna,“ segir Friðrik en stjórn samtakanna fundaði um tillögurnar fram undir kvöld í gær. Var hljóðið í honum þungt, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.