Geir klappstýra en Ingibjörg Sólrún lokuð

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Í minnispunktum sem Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sendi frá sér í maí 2008 til að undirbúa komu Condoleezzu Rice til landsins, er að finna lýsingar á leiðtogum íslensku ríkisstjórnarinnar frá þeim tíma. Geir H. Haarde er þar sagður klappstýra fjármálakerfisins - Ingibjörg Sólrún sé lokuð og stíf. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Útvarpsins í kvöld.

Geir H.Haarde, þáverandi forsætisráðherra, er lýst sem hlýjum, og raunsæjum manni sem oft sé hnyttinn í samskiptum. Hann sé bæði ljúfur og sjálfsöruggur. Hann hafi varið miklum tíma erlendis og hamast við að kveða niður neikvæða gagnrýni um íslenska fjármálaundrið. Þá hafi honum verið lýst sem klappstýru íslenska fjármálakerfisins. Því er komið á framfæri við Rice að spurningar um stöðugleika íslensku krónunnar geti komið illa við hann.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra er lýst sem fremur harðneskjulegri mannesku. Við fyrstu kynni sé hún lokuð og stíf, oft með krosslagðar hendur og samanherpta kjálka. Þessi líkamsbeiting þurfi þó ekki endilega að tákna að hún sé móðguð eða ósammála því sem um ræðir. Hún hafi sterkar skoðanir, hlusti gaumgæfilega og eigi gott með málamiðlanir.

Þá segir að Ingibjörg hafi mikinn áhuga á því að fá að vita hvað smáríki eins og Ísland geti gert til að stuðla að friði fyrir botni Miðjarðarhafsins. Hún sé alfarið á móti eftirlitsflugi CIA um íslenska lofthelgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert