Fjallað er um grunsamlegar mannaferðir við sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík í júní 2009 í daglegri öryggismálaskýrslu, sem bandarísk sendiráð sendu bandaríska utanríkisráðuneytinu.
„Karlmaður og kona tóku myndir á svæðinu norður af bandaríska sendiráðinu í Reykjavík 25. júní. Þau gengu síðan að bakhlið sendiráðsins og tóku fleiri ljósmyndir áður en þau héldu á brott fótgangandi. Karlmaðurinn sást taka myndir í nágrenni sendiráðsins í þrjár klukkustundir til viðbótar. Eftirlitssveitinni þótti það óvenjulegt, að viðfangsefnin tóku myndir af stöðum sem almennt vekja ekki athygli ferðamanna," segir í skýrslunni, sem birtist á vef WikiLeaks í dag.
Bandaríska sendiráðið í Reykjavík staðfesti nýlega, að það stundaði eftirlit í
nágrenni sendiráðsins, líkt og gert sé við bandarískar
starfsstöðvar um allan heim. Fylgst sé með grunsamlegum mannaferðum í nágrenni við sendiráðið í
þeim tilgangi að koma í veg fyrir mögulegar árásir. Þetta sé gert í
samstarfi við íslensk stjórnvöld.