Kínverjar taldir stunda njósnir á Íslandi

Kínverska sendiráðið á húsið að Skúlagötu 51.
Kínverska sendiráðið á húsið að Skúlagötu 51. mbl.is/Golli

Kínverjar eru taldir stunda iðnnjósnir, sem beinast að rannsóknum fyrirtækja á sviði erfðagreiningar og læknisfræði hér á landi. Þetta kemur fram í skýrslum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík til utanríkisráðuneytisins í Washington.

Skjölin eru á meðal þeirra sem lekið var til vefsíðunnar WikiLeaks, segir í Fréttablaðinu í dag sem hefur hluta gagnanna undir höndum.

Í skýrslu, sem dagsett er 26. febrúar í fyrra, er fjallað um ástand öryggismála á Íslandi. Þar segir: „Talið er að Kínverjar stundi iðnnjósnir á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna á Íslandi."

Skjalið er merkt „leyndarmál" og afrit send leyniþjónustunni CIA, alríkislögreglunni FBI og leyniþjónustu hersins, DIA.

Í annarri skýrslu, sem send er á aðfangadag í fyrra og sömuleiðis merkt sem leyndarmál, er greint frá árlegum fundi gagnnjósnahóps sendiráðsins sem Sam Watson, staðgengill sendiherra, stjórnaði. Þar kemur fram að Bandaríkjamenn telji að Kínverjar „haldi áfram" iðnnjósnum á Íslandi, annars vegar með hefðbundnum njósnum (human intelligence) og hins vegar með tæknibúnaði, en það getur falið í sér símhleranir og njósnir á netinu, til dæmis innbrot í gagnabanka.

Í sama skjali segir að talið sé að Rússar fylgist með njósnum Kínverja. Staðgengill sendiherra Rússlands í Reykjavík sé álitinn sérfræðingur í málefnum Kína. Þar mun átt við Valery I. Birjúkov sendiráðunaut, en hann starfaði meðal annars í Kína á vegum sovézku utanríkisþjónustunnar á níunda áratugnum, segir í frétt Fréttablaðsins í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert