Kom á framfæri gagnrýni vegna Icesave

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir að á fundi með sendi­ráðsfull­trúa Banda­ríkj­anna á Íslandi hafi hann lýst yfir von­brigðum og gagn­rýnt það að Bret­ar og Hol­lend­ing­ar beittu áhrif­um sín­um í stjórn Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins til að tefja end­ur­skoðun áætl­un­ar sjóðsins og Íslands vegna Ices­a­ve máls­ins.

Í Frétta­blaðinu í dag er greint frá gögn­um sem Wiki­Leaks hef­ur und­ir hönd­um varðandi sendi­ráð Banda­ríkj­anna á Íslandi. Í Frétta­blaðinu er greint frá því að Bjarni vildi í nóv­em­ber í fyrra taka upp viðræður til að styrkja tví­hliða tengsl Banda­ríkj­anna og Íslands. Þetta kem­ur fram í skýrslu Sams Wat­son, sendi­ráðanauts í banda­ríska sendi­ráðinu.

Wat­son seg­ir Bjarna hafa viljað fá fund í Hvíta hús­inu og hafa lagt til að ut­an­rík­is­mála­nefnd Alþing­is færi til Banda­ríkj­anna.

„Hann spurði síðan, í ljósi nú­ver­andi fjár­hags­vand­ræða Íslands, hvort vera kynni að fjár­mögn­un slíkr­ar ferðar gæti komið úr banda­rísk­um sjóði," seg­ir Wat­son sem kveðst í skýrsl­unni ekki viss um ástæður Bjarna fyr­ir því að ná fund­um hátt­setra emb­ætt­is­manna í Hvíta hús­inu.

Bjarni seg­ir á Face­book síðu sinni í dag að hann hafi á fund­in­um lýst þeirri skoðun að ef Banda­ríkja­menn leyfðu þessu að ger­ast væru þeir hvort tveggja í senn að grafa stór­lega und­an trú­verðug­leika AGS og taka af­stöðu með Bret­um og Hol­lend­ing­um gegn Íslandi í tví­hliða deilu.  

„Þetta taldi ég al­ger­lega óá­sætt­an­legt.  Hafi Frétta­blaðið frá­sögn af þess­um fundi und­ir hönd­um full­yrði ég að um þetta er fjallað þar og því sæt­ir furðu að frá því skuli ekki greint.  

Hitt meg­in­efni fund­ar­ins voru sam­skipti þjóðanna og leiðir til að efla þau eft­ir brott­hvarf varn­ar­liðsins.  Í því sam­bandi benti ég á að ut­an­rík­is­mála­nefnd Alþing­is hefði ekki komið til Washingt­on í allt of mörg ár. Ég tók fram að fjár­heim­ild­ir nefnd­ar­inn­ar væru vissu­lega tak­markaðar og því væru slík­ar ut­an­ferðir al­mennt ekki á dag­skrá nema annað hvert ár.  Engu að síður væri eðli­legt að gera ráð fyr­ir gagn­kvæm­um heim­sókn­um á nokk­urra ára fresti.  Í því lá eng­in beiðni um far­areyri, en Wat­son tók hins veg­ar fram af fyrra bragði að í gangi væru ýms­ar áætlan­ir sem styddu við slík­ar heim­sókn­ir. 

 Vænt­an­lega kem­ur um­rætt minn­is­blað í ljós næstu daga.  Það frétta­mat að gera beiðni um far­areyri að meg­in­at­riði máls­ins er mér óskilj­an­legt.  En sé rétt greint frá því sem þar seg­ir að öðru leyti er það dap­ur­legt og mér reynd­ar al­ger­lega óskilj­an­legt, í ljósi góðra sam­skipta þjóðanna síðastliðna ára­tugi, að þegar formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins lýs­ir áhuga á viðhalda góðum sam­skipt­um þjóðanna og leit­ar leiða til að efla tengsl­in og styrkja, skuli það fært til bók­ar í sendi­ráðinu sem til­raun til að fá fjöl­miðlaat­hygli og koma höggi á rík­is­stjórn­ina.  Get­ur verið að sam­skipti Íslands og Banda­ríkj­anna séu kom­in á þetta stig, eða hef­ur málið ef til vill bara með viðkom­andi starfs­mann sendi­ráðsins að gera ?  

Síðara málið sem verið hef­ur til um­fjöll­un­ar í dag er um að vara­sendi­herr­ann telji sig hafa haft heim­ild­ir um vanga­velt­ur mín­ar um frama inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins og framtíðartengsl Íslands við ESB í ljósi af­stöðu Davíðs Odds­son­ar.  Á um­rædd­um tíma hafði ég eng­in áform um fram­boð til for­ystu í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Allt tal um áhyggj­ur mín­ar af af­stöðu Davíðs Odds­son­ar eru ekk­ert nema inn­an­tóm­ar vanga­velt­ur ein­angraðra emb­ætt­is­manna í er­lendu sendi­ráði.  Þær hafa ná­kvæm­lega ekk­ert gildi enda úr lausu lofti gripn­ar.  Má ég minna á að ég greiddi at­kvæði gegn því að lögð yrði fram aðild­ar­um­sókn að ESB," skrif­ar Bjarni á Face­booksíðu sína í dag.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert