Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að á fundi með sendiráðsfulltrúa Bandaríkjanna á Íslandi hafi hann lýst yfir vonbrigðum og gagnrýnt það að Bretar og Hollendingar beittu áhrifum sínum í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að tefja endurskoðun áætlunar sjóðsins og Íslands vegna Icesave málsins.
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá gögnum sem WikiLeaks hefur undir höndum varðandi sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Í Fréttablaðinu er greint frá því að Bjarni vildi í nóvember í fyrra taka upp viðræður til að styrkja tvíhliða tengsl Bandaríkjanna og Íslands. Þetta kemur fram í skýrslu Sams Watson, sendiráðanauts í bandaríska sendiráðinu.
Watson segir Bjarna hafa viljað fá fund í Hvíta húsinu og hafa lagt til að utanríkismálanefnd Alþingis færi til Bandaríkjanna.
„Hann spurði síðan, í ljósi núverandi fjárhagsvandræða Íslands, hvort vera kynni að fjármögnun slíkrar ferðar gæti komið úr bandarískum sjóði," segir Watson sem kveðst í skýrslunni ekki viss um ástæður Bjarna fyrir því að ná fundum háttsetra embættismanna í Hvíta húsinu.
Bjarni segir á Facebook síðu sinni í dag að hann hafi á fundinum lýst þeirri skoðun að ef Bandaríkjamenn leyfðu þessu að gerast væru þeir hvort tveggja í senn að grafa stórlega undan trúverðugleika AGS og taka afstöðu með Bretum og Hollendingum gegn Íslandi í tvíhliða deilu.
„Þetta taldi ég algerlega óásættanlegt. Hafi Fréttablaðið frásögn af þessum fundi undir höndum fullyrði ég að um þetta er fjallað þar og því sætir furðu að frá því skuli ekki greint.
Hitt meginefni fundarins voru samskipti þjóðanna og leiðir til að efla þau eftir brotthvarf varnarliðsins. Í því sambandi benti ég á að utanríkismálanefnd Alþingis hefði ekki komið til Washington í allt of mörg ár. Ég tók fram að fjárheimildir nefndarinnar væru vissulega takmarkaðar og því væru slíkar utanferðir almennt ekki á dagskrá nema annað hvert ár. Engu að síður væri eðlilegt að gera ráð fyrir gagnkvæmum heimsóknum á nokkurra ára fresti. Í því lá engin beiðni um farareyri, en Watson tók hins vegar fram af fyrra bragði að í gangi væru ýmsar áætlanir sem styddu við slíkar heimsóknir.
Væntanlega kemur umrætt minnisblað í ljós næstu daga. Það fréttamat að gera beiðni um farareyri að meginatriði málsins er mér óskiljanlegt. En sé rétt greint frá því sem þar segir að öðru leyti er það dapurlegt og mér reyndar algerlega óskiljanlegt, í ljósi góðra samskipta þjóðanna síðastliðna áratugi, að þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir áhuga á viðhalda góðum samskiptum þjóðanna og leitar leiða til að efla tengslin og styrkja, skuli það fært til bókar í sendiráðinu sem tilraun til að fá fjölmiðlaathygli og koma höggi á ríkisstjórnina. Getur verið að samskipti Íslands og Bandaríkjanna séu komin á þetta stig, eða hefur málið ef til vill bara með viðkomandi starfsmann sendiráðsins að gera ?
Síðara málið sem verið hefur til umfjöllunar í dag er um að varasendiherrann telji sig hafa haft heimildir um vangaveltur mínar um frama innan Sjálfstæðisflokksins og framtíðartengsl Íslands við ESB í ljósi afstöðu Davíðs Oddssonar. Á umræddum tíma hafði ég engin áform um framboð til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Allt tal um áhyggjur mínar af afstöðu Davíðs Oddssonar eru ekkert nema innantómar vangaveltur einangraðra embættismanna í erlendu sendiráði. Þær hafa nákvæmlega ekkert gildi enda úr lausu lofti gripnar. Má ég minna á að ég greiddi atkvæði gegn því að lögð yrði fram aðildarumsókn að ESB," skrifar Bjarni á Facebooksíðu sína í dag.