Rætt um Icesave í Parísarklúbbnum

Eiffel turninn er eitt helsta tákn Parísarborgar
Eiffel turninn er eitt helsta tákn Parísarborgar JACKY NAEGELEN

Icesave viðræður Íslendinga við Breta og Hollendinga voru ræddar í Parísarklúbbnum svonefnda. Þetta kemur fram í skjölum sem Wikileaks hefur undir höndum. Þar segir um Icesave viðræðurnar að allar trúnaðarviðræður við stjórnvöld hér á landi leki strax í fjölmiðla. Greint er frá þessu á vef RÚV.

Í einu Wikileaks skjalinu sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum er fjallað um Icesave viðræður Íslendinga við Hollendinga og Breta. Fjallað er um viðbröð Hollendinga þegar þeir áttuðu sig á því að málið muni enda í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars. Þá hafi þeir reynt að bregðast við með því að bjóða íslenskum stjórnvöldum lán á fljótandi vöxtum í stað þeirra 5,55%  vaxta sem þegar hafði verið samið um.

Icesave málið virðist hafa verið rætt reglulega á fundum Parísarklúbbsins. Rætt er um Nicole Bollen, yfirmann hjá hollenska fjármálaráðuneytinu - að hann hafi setið fund Parísarklúbbsins sem fulltrúi Hollands 22. til 25. febrúar síðastliðinn í París þar sem þessi mál voru meðal annars til umræðu.

Parísarklúbburinn er óformleg samtök ríkustu þjóða heims og hefur það verkefni að fást við skuldavanda fullvalda ríkja. Samstarfsvettvangurinn spratt upp úr samvinnu vegna skuldavandræða Argentínu á sjötta áratug síðustu aldar. Frá þeim tíma hefur enginn skortur verið á verkefnum fyrir klúbbinn.

Þrátt fyrir að fyrstu áratugina hafi mest borið á vandamálum þróunarríkja sem hafa verið skuldum vafin hefur Parísarklúbburinn á síðari tímum haft vandamál þróaðri hagkerfa til úrlausnar. Í þeirra hópi eru ríki á borð við Rússland, Pólland, Tyrkland og Króatíu. Samkvæmt Evian-samkomulaginu eru úrræði fyrir þau ríki sem leita til Parísarklúbbsins ákveðin í hverju tilviki fyrir sig og fulla samstöðu meðal þeirra ríkja sem tilheyra klúbbnum þarf til þess að mál nái fram að ganga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka