Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, ákvað að rannsaka skyldi hvort svokallað fangaflug Bandaríkjamanna tengdist Íslandi átti íslenskur embættismaður samtal við bandaríska sendiráðið.
Í gögnum frá 13. júlí 2007 er haft eftir embættismanninum að rannsókn á fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, og millilendingum á Íslandi þjónaði fyrst og fremst innanlandspólitískum markmiðum og þá að grafa undan Steingrími J. Sigfússyni, sem hafði deilt harðlega á stjórnvöld vegna málsins. Tilgangurinn væri einnig að koma í veg fyrir að málið gæti valdið utanríkisráðherra meiri vandræðum. Mestu máli skipti að láta eins og eitthvað væri verið að gera. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kemur þetta fram í bandarísku sendiráðsskjölunum, sem lekið var til WikiLeaks.
Annars staðar er fjallað um framboð Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að bandarísk stjórnvöld töldu að Íslendingar væru í meginatriðum sammála um helstu forgangsmál Bandraíkjamanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Töldu þeir að þeir myndu geta átt gott samstarf við Íslendinga næðu þeir kjöri þrátt fyrir nokku ágreiningsmál á borð við Kúbu, Ísrael og Írak.