Nái Íslendingar samkomulagi við Breta og Hollendinga um Icesave á næstu vikum gæti það haft áhrif langt út fyrir Ísland, að því er segir í grein John Dizard á vef Financial Times í dag. Dizard segir að ein af ástæðunum fyrir því að reynt sé að ná sátt í málinu frekar en að grípa til lögsókna sé sú að yfirvöld í Evrópu vilji ekki fá endanlegan úrskurð sem setji fordæmi við spurningunni um hver beri ábyrgð á innistæðutryggingum. Að minnsta kosti ekki strax.
„Ísland átti að vera löndum evrusvæðisins víti til varnaðar í kreppunni," segir í greininni. Vandamálið sé hinsvegar að hlutirnir hafi gengið mun betur fyrir sig á Íslandi en ýmsum evrulöndum, s.s. Írlandi. Atvinnuleysi hafi t.d. vissulega snaraukist eftir bankahruni 2008, en sé aðeins rúmlega 7% og á niðurleið. Krónan hafi einnig fallið, en við það hafi orðið afgangur á viðskiptum við útlönd og þótt enn séu gjaldeyrishöft verði þeim líklega aflétt á næsta ári.
„Ef enginn utan landsteinanna vissi af eða tæki eftir stígandi bata Íslands þá skipti þetta svo sem ekki miklu máli. En Grikkir, Írar og Spánverjar lesa dagblöð og vefsíður og sumir þeirra, sem og stjórnmálamennirnir sem þurfa að sitja fyrir svörum, spyrja sig hvort það sé kannski til önnur leið til að reka hagkerfi," segir Financial Times. Yfirvöld í Evrópu hafi gripið til allra verstu leiðanna til að eiga við vandann.
Í greininni er þó tekið fram að Ísland sé ekki heppilegt dæmi að því leyti að erfitt væri fyrir önnur lönd að grípa til sömu aðgerða og hér hafi verið gert.