Manninum sem handtekinn var í nótt með hlaðinn riffil verður sleppt að lokinni yfirheyrslu í kvöld. Að sögn lögreglunnar ógnaði hann engum með vopninu, sem hann hafði haft með sér á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Á manninum fundust einnig fíkniefni, sem talið er að hann hafi ætlað að selja.
Lögreglunni barst tilkynning á þriðja tímanum í nótt um að sést hafi til manns með skotvopn á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Hann lét sig hverfa áður en lögreglan kom á vettvang. Þar sem vitni gátu gefið greinargóða lýsingu á manninum tókst lögreglu að hafa hendur í hári hans skömmu síðar.
Í ljós kom að hann var með hlaðinn riffil, auk nokkurs magns skotfæra. Maðurinn hefur verið yfirheyrður í dag, en verður sleppt að yfirheyrslunni lokinni.