Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi verið löngu orðið tímabært að gripið væri til aðgerða til hjálpar skuldugum heimilunum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gaf hins vegar lítið fyrir aðgerðirnar og benti á að minni fjármunir væru settir í að bjarga heimilunum heldur en afskrifað hafi verið af skuldum Ólafs Ólafssonar, kenndum við Samskip. Þetta kom fram í Silfri Egils í dag.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist taka undir með Vilhjálmi og að enn sé langt í réttlætið hér. Hún segist ekki vera sérstaklega hlynnt þessari 110% leið enda henti hún þeim sem spenntu bogann hátt, voru með há laun og eru enn með há laun en of fjárfestu. Hins vegar fær sá ekki aðstoð sem tók ekki áhættu og keypti lítið húsnæði.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að tillögurnar gangi út á að hjálpa þeim sem skulda mest og þeirra sem búa við mestu fátæktina. Vaxtabæturnar komi til með að hjálpa flestum þeirra sem eru með fasteignalán. Hann segist ekki vera reiðubúinn til þess að taka af þeim sem eru komnir á eftirlaun og eru taka út lífeyri sinn.
Magnús Orri benti Vilhjálmi á að það séu erlendir kröfuhafar sem hafi þurft að taka á sig skellinn af afskriftum lána Ólafs. Ekki sé hægt að gera neitt í því núna að gömlu bankarnir hafi lánað Ólafi mikið fé.
Pétur segir að það sem er nauðsynlegt nú er að skapa atvinnu meðal annars með því að gefa út kvóta og virkja allt sem hægt er að virkja. Hann vill að byggt verði upp traust á hlutabréfamarkaðnum á ný svo fyrirtæki fái nýtt fjármagn.
Magnús Orri segist skilja vel að ungt fólk fari héðan enda vilji það ekki lenda í sömu aðstæðum og foreldrar þeirra nú. Pétur Blöndal segir að ástæðan fyrir því að fólk flýi hér land séu háir skattar.
Egill Helgason, stjórnandi Silfur Egils, segir að menntafólkið og tæknifólk sé að fara héðan enda séu launin svo lág á Íslandi.