Auknar afskriftir hjá Íbúðalánasjóði

Íbúðalánasjóður reiknar nú út áhrif aðgerða í skuldamálum á stöðu …
Íbúðalánasjóður reiknar nú út áhrif aðgerða í skuldamálum á stöðu sjóðsins.

Afskriftir á lánum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) hafa aukist verulega á þessu ári og útlit fyrir að aukningin haldi áfram á næsta ári. Áætlun um afskriftir er í vinnslu en í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2010 er m.a. heimilað að efla eiginfjárstöðu sjóðsins um allt að 33 milljarða króna.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, segir að sú heimild ætti að duga til að eiginfjárstaðan verði orðin um 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2011.

Í frétt á vef Íbúðalánasjóðs segir að þessi eiginfjáraukning sjóðsins sé í samræmi við viljayfirlýsingu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá september 2010, en þar er gert ráð fyrir að eiginfjáraukningu til Íbúðalánasjóðs verði lokið fyrir árslok 2010.

Eigið fé sjóðsins skv. árshlutauppgjöri 2010 var jákvætt um 8,4 milljarða króna sem þýðir að eiginfjárhlutfall hans var 2,1%, en langtímamarkmið sjóðsins er að hafa hlutfallið yfir 5%.

„Til að ná langtímamarkmiði sínu um 5% eiginfjárhlutfall í árslok 2011 er ljóst að ríkissjóður þarf að leggja Íbúðalánasjóði til aukið eigið fé. Sem stendur er verið að undirbúa aðgerðir til aðstoðar þeim heimilum í landinu sem eru í greiðsluerfiðleikum. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif á áætlaðar afskriftir lána og þar með á eiginfjárþörf sjóðsins,“ segir á vef ÍLS.

„Við höfum verið að vinna í okkar áætlun þar sem gert er ráð fyrir töluverðum afskriftum. Einnig erum við að reikna út hver áhrifin verða fyrir sjóðinn af þeim aðgerðum stjórnvalda til lausnar á skuldavandanum, sem kynntar voru fyrir helgi," segir Sigurður Erlingsson við mbl.is.

Um mitt þetta ár var búið að afskrifa um 1,5 milljarða króna af útistandandi lánum Íbúðalánasjóðs en frá þeim tíma hafa afskriftirnar aukist verulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka