Í skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar, sem kynnt var á flokksstjórnarfundi flokksins á laugardag, eru engir einstaklingar nefndir á nafn. Ásgeir Beinteinsson, einn höfunda skýrslunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að sú leið hafi verið ákveðin snemma í ferlinu.
„Við lítum svo á að flokkurinn beri ábyrgð á því sem gert er og ekki gert og beri ábyrgð á einstaklingum innan hans. Verkefni okkar var að benda á galla í kerfinu, sem einstaklingar starfa innan. Það er svo á ábyrgð stofnana innan flokksins að draga menn til ábyrgðar ef ástæða er talin til. Það gat ekki orðið verkefni okkar sem unnum skýrsluna,“ segir Ásgeir.
Í skýrslunni eru tiltekin nokkur atriði, sem nefndarmönnum þykir rétt að Samfylkingin taki til skoðunar, en engin sérstök dæmi eru nefnd um mistök eða afglöp hjá flokknum eða einstökum flokksmönnum, ef frá er skilið stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.
Hvað varðar ábyrgð einstakra stjórnmálamanna segir Ásgeir að fólk velti henni eðlilega fyrir sér. Nefndin beindi hinsvegar athygli sinni að flokknum sem heild og sameiginlegri ábyrgð hans. Þess vegna varða tillögur hennar starfshætti og reglur flokksins en ekki einstaka flokksmenn.
Þegar Alþingi greiddi atkvæði um hvort draga ætti Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdóm greiddu níu þingmenn Samfylkingar atkvæði með ákæru á Geir. Fjórir þeirra greiddu svo atkvæði gegn ákærum á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Er þetta ekki í fyrsta sinn sem styrkir til frambjóðenda í prófkjörum Samfylkingarinnar eru gagnrýndir, en fyrr í haust flutti Mörður Árnason ræðu, þar sem hann sagði að koma þyrfti fram hvaðan „tugmilljónir“ komu, sem Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vörðu í leiðtogabaráttunni árið 2005.
Í skýrslunni segir að Samfylkingin hafi gert alvarleg mistök með því að leyfa málum að þróast í það horf að kostnaðarsöm kosningabarátta sé forsenda þess að ná sæti ofarlega á framboðslista, segir í skýrslu umbótanefndar flokksins. Setja þurfi þröngar reglur sem koma í veg fyrir að flokkurinn vinni gegn sjálfum sér. Í skýrslunni segir að styrkir fyrirtækja til flokksins, eða einstaklinga innan hans, dragi úr trúverðugleika flokksins vegna þeirra hagsmunatengsla „sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra styrkja“.
„Af tillögunum tel ég líklega mikilvægast að fara fyrst í að styrkja tengsl milli flokksforystunnar og grasrótarinnar. Eins og við bendum á í skýrslunni er sú gagnrýni áberandi meðal almennra flokksmanna að forystan sé ekki í tengslum við þá. Starf aðildarfélaga hafi lítil áhrif á stefnumörkun og forystan fylgi samþykktum stofnana flokksins ekki eftir. Þetta þarf að laga og ef það á að gerast þurfa bæði almennir flokksmenn og forystufólk að taka höndum saman um það.“
Ekki náðist í neitt af forystufólki Samfylkingarinnar við vinnslu þessarar fréttar.
Afsökunarbeiðni