Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki getað stuðlað að því að Icesave-reikningar Landsbankans í Bretlandi yrðu fluttir yfir í dótturfélag án þess að leggja fram tryggingar sem líklega hefðu verið hærri en þær skuldbindingar, sem Ísland kann að þurfa að axla vegna Icesave.
„Ég held að virk aðkoma ríkisvaldsins að þessu hefði ekkert leitt til þess að hægt hefði verið að gera þetta án þess að einhverjar skuldbindingar kæmu á móti. Og miðað við þær tölur, sem maður heyrir nú um hvað gæti komið út úr Icesave-samningunum, þá get ég best trúað því, að það sem við hefðum þurft að garantera á þessum tíma, til að geta flutt Icesave-reikningana, hefðu verið hærri upphæðir en við myndum hugsanlega þurfa að borga núna," sagði Árni.
Eitt af atriðunum, sem meirihluti þingmannanefndar nefndi í tillögu um að höfða mál á hendur fjórum fyrrum ráðherrum fyrir landsdómi, þar á meðal Árna, var að þeir hefðu ekki fullvissað sig um, að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
Árni sagði í Kastljósinu, að bresk stjórnvöld hefðu örugglega ekki tekið við fleiri hundruð milljarða skuldbindingum vegna Icesave-reikninga Landsbankans frá Íslendingum án þess að ábyrgðir kæmu á móti.
Þegar Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, sagði að Landsbankamenn hefðu vitnað í samskipti sín við breska fjármálaeftirlitið um að þetta hefðu ekki verið svo háar upphæðir sagði Árni að þeir hefðu þá verið á villigötum. „Af hverju gerðu þeir það þá ekki, fyrst þetta var hægt?" spurði hann.
Árni benti einnig á, að á þessum tíma hefði Landsbankinn verið rekinn með hagnaði og upplýsingar, sem stjórnvöld hefðu haft hefðu verið um að það væri fyrst og fremst lausafjárvandræði sem plagaði bankann. „Við höfðum kannski ekki eins miklar ástæður, og þú ert að leggja upp með, til að beita virkum aðgerðum til að þvinga þá til að fara með þessar innistæður til annars lands. Og það hefði kostað okkur stórar fjárhæðir og ég efast um að við værum í betri stöðu í dag þótt við hefðum gert það þarna," sagði Árni.