Kennarasamband Íslands, KÍ, hefur ákveðið að taka ekki þátt í heildarsamfloti um gerð kjarasamninga. Slíkt samflot hafi verið reynt á síðasta samningatímabili og reynst félögum í KÍ afar illa.
Þetta var áyktað á sameiginlegum fundi stjórna og samninganefnda félaga innan KÍ. Segir ennfremur að sambandið sé tilbúið til samvinnu um afmarkaða þætti sem miði að því að finna þær forsendur sem kjarasamningar gætu byggst á. Forsenda fyrir þátttöku KÍ í þeirri vinnu sé hins vegar sú að vinnan verði unnin á ábyrgð ríkissáttasemjara og undir verkstjórn hans.
„Miðað við núverandi aðstæður telur Kennarasamband Íslands engar forsendur fyrir því að gera kjarasamninga til lengri tíma en eins árs. Þessi skoðun er byggð á þeirri miklu óvissu sem nú ríkir varðandi ýmis atriði sem varða kjör félagsmanna KÍ. Nægir hér að nefna óvissu um fjárlög næstu ára, óvissu um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og ekki síst óvissu um þróun verðlags á næstu misserum. Þá er starfsöryggi margra í uppnámi vegna óvissu um framtíð skóla þar sem áform eru uppi um sameiningu og / eða niðurlagningu þeirra," segir í ályktun kennara.
Ennfremur segir að Kennarasamband Íslands leggi áherslu á að sjálfstæður samningsréttur félaga verði virtur í komandi kjaraviðræðum. „Nauðsynlegt er að strax verði hafist handa við kjarasamningagerð þannig að gerð nýrra kjarasamninga verði lokið sem allra fyrst enda hafa flest félög innan KÍ verið samningslaus vel á annað ár,“ segir í lok ályktunar KÍ.