„Ég held að margir sem hafi yfirskuldsettar eignir meti stöðuna þannig að það sé best að fara í gjaldþrot“.
Þetta segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í Morgunblaðinu í dag, aðspurð hvort hún telji að fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda í málefnum skuldara muni að óbreyttu leiða til þess að margir muni gefast upp á skuldunum, í stað þess að reyna að standa undir afborgunum.
Lilja segir að erfitt sé að áætla hversu margir kunni að velja að fara í gjaldþrot með 2 ára fyrningartíma krafna, eins og nú stendur til að bjóða upp á. Hitt sé óhætt að benda á að í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar sé áætlað að 15.200 heimili séu yfirskuldsett, þ.e. skuldi meira en 110% af verðmæti eignar.
„Það er reiði gagnvart þessari 110% leið vegna þess að Arion banki og Íslandsbanki buðu áður mjög tekjuháum einstaklingum betri leið. Fólk er reitt yfir því að það sé ekki einu sinni verið að bjóða upp á fulla niðurfellingu á töpuðum skuldum bankanna,“ segir Lilja.