Kostnaður nánast fjórfaldast

Össur Skarphéðinsson hefur gegnt embætti utanríkisráðherra frá því 1. febrúar …
Össur Skarphéðinsson hefur gegnt embætti utanríkisráðherra frá því 1. febrúar 2009.

Kostnaður við rekstur sendiskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur nánast fjórfaldast frá því árið 1991, á föstu verðlagi. Þetta kom fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn á Alþingi í dag. Sendiskrifstofur eru nú 21, en voru 13 árið 1991.

Á föstu verðlagi októbermánaðar í ár, var kostnaður við rekstur sendiskrifstofa 813,9 milljónir árið 1991. Hann hefur síðan farið stigvaxandi, og er gert ráð fyrir að kostnaðurinn ár nemi 3.009 milljónum króna. Sú upphæð er um milljarði hærri en kostnaðurinn var árið 2008. Sú hækkun skýrist að mestu leyti af gengisfalli krónunnar, en gjaldmiðillinn veiktist um 34% á tímabilinu frá október 2008 til október 2009.

Umfang starfsemi ráðuneytisins erlendis hefur þó heldur dregist saman, en sendiskrifstofur voru 24 talsins árin 2008 og 2009. Að sama skapi hefur fjöldi útsendra starfsmanna ráðuneytisins dregist saman frá því sem mest var, og eru þeir nú 54. Árið 1991 voru þeir 49, en árið 2006 voru þeir flestir, 71.

Í tölum um kostnað er ekki tekið tillit til stofnkostnaðar eða heimilda vegna viðhalds, tækja og búnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka