Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir lítið fara fyrir umræðu um „milljarðatugi,“ á meðan mikið púður fari í umræðu um smáar fjárhæðir, ekki síst þær sem hægt er að tengja við einstaklinga og persónur. Hann segir þingmenn kasta til höndunum við útfærslu ríkisfjármálanna.
„Þetta ber með einhverjum hætti vott um það að við erum ekki að vinna vinnuna okkar með þeim hætti sem við erum að gera. Við þurfum að gefa því betur gaum hvernig þeim fjármunum sem hér undir liggja, 500 milljarðar, er ráðstafað,“ sagði Kristján Þór í þriðju og síðustu umræðu um fjáraukalög nú í kvöld.
Hann segir þingmenn láta ganga yfir sig á skítugum skónum. Að ætlast sé til þess að þeir „kokgleypi“ þær tillögur sem fram koma, þrátt fyrir að allir nefndarmenn fjárlaganefndir hafi efasemdir um vinnubrögðin. Ekki hafi gefist tími til að fara yfir kostnaðarsamar tillögur.
Kristján vísaði í orðaskipti Ásbjörns Óttarssonar og Oddnýjar Harðardóttur frá því fyrr í dag. Af þeim hafi mátt ræða að ekki verði hægt að fresta tilteknum þáttum fjáraukalagafrumvarpsins sem ígrunda þurfi betur.
Ræða Kristjáns endurómaði það sem fram kom í framhaldsnefndaráliti 1. minnihluta fjárlaganefndar, sem lagt var fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, þeim Kristjáni, Ásbirni Óttarssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, eru vinnubrögð nefndarinnar gagnrýnd harkalega vegna umfjöllunar um breytingu á fjáraukalagafrumvarpinu.
Í nefndarálitinu segir að á 58 mínútna fundi hafi tillögur ríkisstjórnarinnar um 55 milljarða króna fjárútlát verið til umfjöllunar. Þar var um að ræða 33 milljarða fjárveitingu til Íbúðarlánasjóðs, og 22 milljarða vegna gjaldfærslu ríkisábyrgða.
„Framangreind vinnubrögð eru bæði forkastanleg og ótæk. Það er með hreinum ólíkindum að meiri hluti nefndarinnar skuldbindi ríkissjóð um tugi milljarða króna á örfáum mínútum án alls rökstuðnings og skýringa. Er borin von að hægt verði að ná tökum á ríkisfjármálunum með þeim agalausu og forkastanlegu vinnubrögðum sem meiri hluti fjárlaganefndar lætur bjóða sér,“ segir í áliti þremenninganna.