Meðlagsskuldir námu yfir tuttugu milljörðum króna í lok nóvember. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ögmundar Jónassonar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Alls eru rúmlega 11 þúsund karlmenn meðlagsgreiðendur á Íslandi en konur eru 558 talsins.
Í lok nóvember skulduðu karlkyns meðlagsgreiðendur, sem eru 11.060 talsins, 20.080.626.063 kr. Kvenkyns meðlagsgreiðendur eru 558 og skulda þær 575.284.395 kr.
Til frádráttar þessum fjárhæðum eiga svo eftir að koma innheimtur á móti reiknuðum meðlögum frá 15. nóvember 2010 til loka mánaðarins, u.þ.b. 75–100.000.000 krónur, samkvæmt svari ráðherra.
„Þessar skuldir bera keim af þeirri staðreynd að almennt eru kröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga ekki afskrifaðar nema við andlát, reynist dánarbú greiðenda eignalaust, eða afskrifaðar að hluta eða öllu leyti að loknu samningsferli meðlagsgreiðanda sem staðið hefur í það minnsta þrjú ár samfellt, sbr. reglugerð nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga," segir jafnframt í svarinu sem er hægt að lesa í heild hér.