Ný drykkjarverksmiðja tekur til starfa

Úr verksmiðju Kletts við Köllunarklettsveg.
Úr verksmiðju Kletts við Köllunarklettsveg.

Katrín Júlíusdóttir  iðnaðarráðherra mun á morgun opna formlega Gosverksmiðjuna Klett, nýja drykkjar- og átöppunarverksmiðju. Verksmiðjan er í eigu 25 einstaklinga og mun eingöngu framleiða drykki á innanlandsmarkað til að byrja með.

Í tilkynningu frá félaginu segir að rekja megi sögu Kletts til ársins 2009. Nokkrir einstaklingar hafi þá verið að flytja heim til Íslands og leitað leiða til að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu atvinnulífsins, eins og það er orðað. Höfðu þeir starfað erlendis um árabil, m.a. við gosframleiðslu.

Alls hafa um og yfir 100 manns komið að uppbyggingu verksmiðjunnar á einn eða annan máta. Í dag eru 25 aðilar sem eiga verksmiðjuna og eru meðal þeirra helstu starfsmenn, ásamt vinum og fjölskyldum. Í þeim hóp er enginn fagfjárfestir og enginn þekktur fjárfestir, segir í tilkynningu.

Gosverksmiðjan stendur við Köllunarklettsveg sem dregur nafn sitt af sögulegum kletti. „Á árum áður þegar Viðey var enn í byggð stóð fólk á klettinum og kallaði á ferjuna til Viðeyjar. Um leið vísar nafnið til traustrar undirstöðu og varanleika og það eru markmið okkar að þau gildi muni endurspeglast í rekstrinum," segir í tilkynningu frá Kletti.

Tvær línur drykkjartegunda, Kletta GOS og Kletta VATN, með ýmsum bragðtegundum hafa þegar litið dagsins ljós. Á næstu mánuðum munu svo fljótlega bætast við fleiri vörutegundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert