Sjómannasamband Íslands hélt 27. þing sitt 2. og 3. desember síðastliðinn. Eftir þingið liggja fjölmargar ályktanir, meðal annars er afnámi sjómannaafsláttarins harðlega mótmælt og skorað á stjórnvöld að hætta við þau áform. Í ályktun frá sambandinu segur að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að kjör sjómanna skerðist ekki þó sú ákvörðun sé tekin að kostaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna.
Þingið minnir stjórnvöld á skýrslu nefndarinnar sem sett var á fót til að ná meiri sátt um stjórnkerfi fiskveiðanna. Í ályktuninni segir að meirihluti nefndarinnar hafi lagt til ákveðnar breytingar á lögunum til að meiri sátt ríkti í þjóðfélaginu um kerfið. Ekki verði þó séð á athöfnum stjórnvalda að mark eigi að taka á ábendingum nefndarinnar.
„Þvert á móti virðist sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja sig fram um að hunsa meirihlutaálit nefndarinnar,“ segir í ályktuninni.
Þingið gagnrýnir einnig að ekkert samráð virðist eiga að hafa við samtök sjómanna um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar og „mótmælir þeirri lítilsvirðingu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýnir sjómönnum ítrekað með því að leita ekki eftir áliti samtaka þeirra þegar ráðuneytið fjallar um málefni sjávarútvegsins.“
Þingið krefst þess að frjálst framsal aflamarks verði afnumið og samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu og hafnar alfarið hugmyndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda í þorski, ýsu, gullkarfa, ufsa og síld af þeim sjómönnum sem starfa á skipum sem nú hafa aflahlutdeild í þessum tegundum og selja þær öðrum.
Einnig skorar þingið á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að
draga til baka bann við dragnótaveiðum. Þingið er ósammála þeirri aðgerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka rækju úr kvóta og gefa veiðarnar frjálsar.
Þingið leggur áherslu á að inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins komi „afdráttarlaust ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þ.m.t.
fiskistofnum í íslenskri lögsögu.“
Niðurskurði á rekstrarfé til Landhelgisgæslu Íslands er mótmælt. Á það er bent að lífsspursmál er fyrir sjómenn og aðra landsmenn að þyrlur
séu til staðar þegar slys eða veikindi bera að höndum.