Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að svarbréf til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna Icesave verði ekki sent fyrir miðnætti annað kvöld, en þá rennur út sá frestur sem settur var. Árni Páll sagðist hafa tilkynnt ESA það og ástæðan sú að samningaviðræður standa yfir.
„Það er þannig að unnið er að því að ná niðurstöðu í Icesave-málinu og kanna hvort grundvöllur sé til að ljúka samkomulagi. Ég held að það sé mikilvægt að við náum að sameinast um það hér að gefa þeim samningaumleitunum tækifæri,“ sagði Árni Páll og einnig að hann hafi rætt við forseta ESA og tjáð honum að svar verði ekki sent morgun, þar sem viðræður standa yfir. Farið verði aftur yfir málið með ESA á miðvikudag.