Gerð er tillaga um 60 milljóna kr. tímabundið framlag á fjárlögum næsta árs til tveggja ára vegna verkefna á sviði loftslagsmála til aðstoðar þróunarlöndum á árunum 2011-2012. Þetta kemur fram í tillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið.
Framlagið er í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 9. nóvember sl. og er rökstutt með því að meðal iðnríkja sé breið samstaða um að stórauka þurfi fjármögnun til aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum og aðstoða fátækustu þróunarríkin við að takast á við afleiðingar þeirra.
„Miðað við höfðatölu og þjóðarframleiðslu ætti framlag Íslands miðað við samþykkt Kaupmannahafnarsamkomulagsins að nema 250-300 [milljónum kr.] árlega. Í ljósi stöðu ríkisfjármála er lagt til að framlagið nemi 500.000 [Bandaríkjadölum] eða um 60 [milljónum kr.] á árunum 2011 og 2012,“ segir í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar.