Lesskilningur íslenskra grunnskólanemenda hefur batnað á undanförnum árum, samkvæmt niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar fyrir árið 2009.
Þetta kom fram á fundi á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í morgun. PISA-rannsóknin 2006 sýndi mikla niðursveiflu í lesskilningi, en sú þróun hefur að mestu gengið til baka og nioðurstöður eru nú svipaðar og árið 2000.
Í 10 löndum af þeim 68 sem tóku þátt í rannsókninni er betri lesskilningur. Ísland er í 11. - 13. sæti í stærðfræði af OECD löndunum og í 20.-25. sæti í náttúrufræði.
Íslenskir nemendur standa sig því verst í náttúrufræði af þeim greinum sem prófað var í.
Sérstaða Íslands er fyrst og fremst sú að nemendur hafa mestan jöfnuð til að ná árangri í námi, óháð þfjóðfélagsstöðu og fjölskylduaðstæðum.
Munur á milli skóla
Mismunur í lesskilningi nemenda hefur þó aukist á milki skóla. Svipuð þróun hefur átt sér stað í Svíþjóð og Finnlandi.
Árið 2000 skýrði skóli 7% af breytileika í lesskilningi milli nemenda, 2009 er hlutfallið 18%. Ýmir þættir eru taldir hafa áhrif í þessu sambandi; t.d. aukið vægi fræðsluskrifstofa í skólaþróun.
Mjög hefur dregið saman með Norðurlöndunum frá fyrri PISA-rannsóknum, Finnland er það Norðurlandanna sem nær bestum árangri. Ísland og Noregur hafa sýnt framfarir frá árinu 2006, sérstaklega í lesskilningi, Danmörk stendur í stað og Svíþjóð hefur hrakað.
Kynjamunur minnkar
Ekki reyndist vera kynjamunur í stærðfræði og náttúrufræði, en í lesskilningi standa stúlkur framar drengjum. Kynnjamunur var mjög áberandi í fyrri könnunum.
Íslenskir strákar búa yfir svipaðri hæfni í lesskilningi og jafnaldrar þeirra í OECD-löndunum. Íslenskar stúlkur eru aftur á móti fleiri í efri hæfnisþrepum í lesskilningi en jafnöldrur þeirra í OECD-löndunum.
Í helmingi OECD landanna er lesskilningur lítið háður efnahag.
Staða aðfluttra nemenda var sérstaklega skoðuð í rannsókninni. Ólíkir hópar voru skoðaðir; t.d. þar sem nemandi og foreldri fæddust í öðru landi og þar sem nemandi fæddist í öðru landi, en ekki foreldrar. Hópurinn þar sem bæði nemendur og foreldrar fæddust erlendis er afar frábrugðinn öðrum hópum og var það eins og við var að búast. Staða nemenda sem eiga aðflutta móður er slakari en staða nemenda sem eiga aðfluttan föður.
Munur á milli landshluta
Talsverður munur er á frammistöðu á Íslandi eftir landshlutum og á það við um allar greinar sem voru rannsakaðar.
Með PISA er spurt hversu vel undirbúnir 15 ára nemendur eru. PISA-rannsóknin er gerð á vegum OECD og er gerð þriðja hvert ár. Hún var fyrst gerð árið 2000.
PISA er skammstöfun á enska heiti rannsóknarinnar: Programme for International Student Assessment.