„Nei. Það er nú ekki gefið,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, aðspurður hvort samkomulag í Icesave-deilunni muni liggja fyrir í vikunni.
„Það eru ákveðin atriði sem er enn ágreiningur um og framhaldið ræðst því vitanlega af því hvort samkomulag næst um alla hluti.“
„Það er margt sem hefur breyst frá því að við vorum að glíma við þetta síðast. Bæði hefur hin pólitíska staða auðvitað breyst í þessum löndum og síðan hefur staðan breyst í efnahagslegu tilliti hjá þeim og okkur. Þetta hygg ég að valdi því að þeir sýna aukinn áhuga á því að finna niðurstöðu í málið sem er bærilega aðgengileg fyrir alla aðila. Maður skynjar að í haust hefur verið vaxandi áhugi hjá þeim að leysa málið. Það er m.a. talið skýrast af pólitískum breytingum,“ segir Árni Þór og vísar til þingkosninga ytra.