Liðlega helmingur Evrópumanna er nú of feitur og fjórðungur Breta þjáist bókstaflega af offitu. Hefur hlutfall offituhefur rúmlega tvöfaldast á 20 árum í flestum löndunum, segir í frétt BBC. Vitnað er í nýja skýrslu, Health at a Glance Europe 2010. Íslendingar eru í fjórða sæti hvað varðar offitu.
Bretar standa verst að vígi, þar í landi eru 24,5% íbúanna offitusjúklingar. Hlutfallið er næstverst á Írlandi, þar er það 23.0%, þá kemur Malta með 22,3% og í fjórða sæti er Ísland með 20,1%. Lúxemborgarar eru á hælunum á Íslendingum, þar eru 20.0% offitusjúklingar. Í Finnlandi er hlutfallið 15,7%, í Danmörku 11,4%, í Svíþjóð 10,2% og í Noregi 10,0%. Minnstur er vandinn í Rúmeníu.