„Við höfum verið að ná vaxtaprósentunni niður á ásættanlegt stig. Við skulum ekki gleyma því að þegar rætt er um 3,5% vexti, reiknaða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna er um að ræða verðtryggð lán.
Á heimsvísu eru þetta ekki lágir vextir eins og sakir standa. Það er fráleitt, nánast þjóðhættulegt, annað en að halda vaxtastiginu lágu. Við skulum heldur ekki gleyma því að við erum að tala um fjárfestingu sem er mjög örugg fyrir lífeyrissjóðina, nánast gulltryggð.
Ég hef trú á því að menn séu byrjaðir að sjá til sólar í þessu sem og ýmsu öðru,“ segir Ögmundur Jónasson samgönguráðherra, aðspurður hvort samið hafi verið um vexti í fyrirhugaðri fjármögnun lífeyrissjóða á vegaframkvæmdum.
Forveri Ögmundar, Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar, kveðst bjartsýnn á að framkvæmdir geti hafist með vorinu.