Hæstiréttur vísar máli skuldara frá

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Hæstiréttur vísaði í dag frá Héraðsdómi Reykjavíkur máli manns sem óskað hafði eftir heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Héraðsdómur hafði hafnað beiðni hans, og kærði hann úrskurð Héraðsdóms til Hæstaréttar. 

Meðal annars þótti ljóst fyrir Héraðsdómi að skuldarinn hafði stofnað til verulegra skulda þegar honum átti að vera ljóst að hann gæti ekki staðið við þær. Á árunum 2008 og 2009 hafði hann samanlagðar árstekjur upp á um 1,1 milljón króna. Á sömu árum stofnaði hann til yfirdráttar-, kreditkorta- og annars konar skulda að andvirði um 10 milljóna króna. Héraðsdómur hafnaði beiðni mannsins um nauðasamninga.

Í kæru mannsins til Hæstaréttar kemur fram að aðstæður hans hafi breyst snemmsumars, og hann þá ráðinn í vinnu. Við það hækkuðu tekjur mannsins, sem verið hafði á atvinnuleysisbótum, töluvert. Þetta gerðist eftir að Héraðsdómi barst beiðni mannsins, en töluvert löngu áður en beiðninni var hafnað.

Að mati Hæstaréttar höfðu aðstæður sóknaraðila, sem verulega þýðingu höfðu, breyst og Héraðsdómur ekki upplýstur um þessar breyttu aðstæður. Úrskurður Héraðsdóms hafi því ekki verið reistur á réttum forsendum. Málið hafi verið svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að óhjákvæmilegt sé annað en að vísa því frá Héraðsdómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert