Fréttaskýring: Reynt að ráða í vilja kjósenda

Landskjörstjórn afhenti nýkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþing kjörbréf sín á fundi …
Landskjörstjórn afhenti nýkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþing kjörbréf sín á fundi í síðustu viku. mbl.is/Eggert

Sú aðferð sem notuð var við uppgjör á kosningum til stjórnlagaþings les eins vel í vilja kjósenda og mögulegt er. Uppgjörið er hins vegar afar flókið og erfitt að átta sig á því hvers vegna hluti frambjóðenda komst að frekar en ýmsir sem virðast í fljótu bragði hafa fengið jafngóða eða betri útkomu.

Landskjörstjórn hefur smám saman verið að birta upplýsingar um uppgjör kosninganna. Ítarlegustu upplýsingarnar er að finna í mörg hundruð blaðsíðna plaggi. Þar kemur fram að sætunum 25 var úthlutað í 509 lotum.

Talningin fer fram í tölvum. Til einföldunar má ímynda sér að atkvæðunum sé í upphafi skipt eftir nöfnum þeirra frambjóðenda sem valdir voru í fyrsta vali. Út úr því komu 525 misháir bunkar. Aðeins einn frambjóðandi, Þorvaldur Gylfason, náði þá þegar svokölluðum sætishlut og var öruggur inn. Hann fór vel yfir markið og voru þeir frambjóðendur sem kjósendur völdu í annað sætið látnir njóta þess með því að fá ónotaðan hluta atkvæðanna.

Ef það dugði ekki til að koma öðrum frambjóðanda yfir markið var sá frambjóðandi sem lökustu útkomuna fékk strikaður út og atkvæði hans flutt á þá sem eftir voru. Þannig var unnið frá báðum endum þangað til eftir sátu bunkar þeirra 25 fulltrúa sem náðu kjöri á stjórnlagaþing.

Kerfið gengur út á það að kjósendur forgangsraði frambjóðendum. Því skiptir ekki öllu máli hversu oft einstakir frambjóðendur koma fyrir á atkvæðaseðlunum. Þannig voru nokkrir frambjóðendur sem ekki komust að nefndir mun oftar en sumir þeirra sem komust að.

Það vekur einnig spurningar að frambjóðendur sem fengu talsvert mörg atkvæði í fyrsta og öðru vali, en náðu þó ekki svokölluðum sætishlut, sátu eftir. Nefna má Magnús Thoroddsen og Stefán Gíslason í því efni en þeir fengu nálægt tvöfalt fleiri atkvæði í efsta sætið en til dæmis Lýður Árnason sem þó komst inn. Að vísu var Lýður nefndur oftar en Magnús og Stefán.

Sem annað dæmi má nefna að Gunnar Hersveinn fékk fleiri atkvæði í fyrsta vali og fyrsta og öðru vali alls en Ástrós Gunnlaugsdóttir og var auk þess nefndur oftar í heildina. Þó komst hún inn en hann ekki.

Helsta skýringin er að umræddir fulltrúar hafi notið þess að vera oftar settir í sæti á eftir frambjóðanda sem ekki nýtti atkvæði sín til fulls, t.d. Þorvaldi Gylfasyni, frekar en Salvöru Nordal eða Ómari Ragnarssyni sem sjálf nýttu atkvæði sín mun betur og leifðu litlu. Segja má að sanngirnin sé fremur kjósandans en frambjóðandans.

Lýðræðið krefst gagnsæis

„Kosningakerfið hefur eflaust óteljandi kosti en það hefur óneitanlega þann galla að vera ógagnsætt,“ segir Gunnar Hersveinn rithöfundur, sem var meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings.

„Við hljótum að gera þá kröfu að bæði frambjóðendur og kjósendur geti skilið útreikningana án þess að þurfa að fara á námskeið. Kjósendur þurfa að þekkja kerfið til að geta raðað skynsamlega á lista og þeir hljóta að gera þá kröfu að niðurstaðan sé skýr og greinileg fyrir fleiri en stærðfræðinga. Frambjóðandi þarf jafnframt að geta ráðlagt kjósendum sínum ef hann er spurður og einnig að geta útskýrt niðurstöðuna. Lýðræði krefst gagnsæis upplýsinga vegna þess að við viljum ekki reiða okkur alfarið á vald sérfræðinganna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert