Snjóþekja er á vegum austanlands og hálka og hálkublettir á flestum vegum um land allt. Umferðartafir verða um Fáskrúðsfjarðargöng að nóttu fram til 10. desember.
Á Suðurlandi eru víða hálkublettir og hálka á nokkrum leiðum. Hálkublettir eru víðast hvar á Vesturlandi, þó er hálka á Vatnaleiði.
Á Vestfjörðum er hálka á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði en annars eru hálkublettir á flestum leiðum og á sunnanverðum fjörðunum.
Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Snjóþekja er frá Tjörnesi að Raufarhöfn. Á Austurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Þæfingsfærð er á Öxi. Vegir eru auðir á Suðausturlandi.
Verið er að setja upp vegrið á miðeyju á Reykjanesbraut. Unnið verður frá skiltabrúnni fyrir sunnan Breiðholtsbrautarbrúna í átt til norðurs áleiðis niður Mjóddina. Vinstri akrein til norðurs er lokuð meðan á vinnu stendur. Vinnusvæðið er vel afmarkað og merkt en búast má við að vinnan standi í nokkrar vikur, segir Vegagerðin.
Vegna viðgerða í Fáskrúðsfjarðargöngum má búast við töfum milli kl 21:00 og 07:00 til 10. desember. Vegna lagnaframkvæmda í jarðgöngunum um Breiðadals - og Botnsheiði eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát við akstur í Tungudalslegg ganganna næstu daga.
Á Kjalarnesi er verið að breyta vegtengingu Hringvegar að áningarstað við Mógilsá. Enn er unnið við uppsetningu vegriða og ljósastaura á mótum Vesturlandsvegar og Álafossvegar í Mosfellsbæ, ásamt frágangi á vegsvæði.