Engar eignir fundust í þrotabúi eignarhaldsfélagsins Hafnarhóls sem tekið var til gjaldþrotaskipta í ágúst síðastliðnum.
Skiptum lauk því án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, rúma 9,4 milljarða króna, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta. Eigandi félagsins segir það hafa verið týpískt félag sem átti hlutabréf.
Hafnarhóll var fjárfestingarfélag í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims. Í gegnum Landsbankann í Lúxemborg var gerður lánasamningur til kaupa á hlutafé í öðrum íslenskum banka og var eina starfsemi félagsins að halda utan um bréfin.
Guðmundur sagði í samtali við Morgunblaðið að Hafnarhóll hefði verið týpískt félag sem átti hlutabréf. Það líkt og önnur eins hafi farið á hausinn. „Þetta voru bankabréf, keypt í banka, fjármögnuð af banka og geymd í banka,“ sagði Guðmundur og bætir við: „Þetta var keypt froða og lánuð froða, og svo bara hvarf froðan.“