Meirihluti fjárlaganefndar leggur til miklar breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Fjárlagahallinn verður skv. þessu 34 milljarðar að sögn Oddnýjar Harðardóttur, formanns fjárlaganefndar, en það er 2 milljörðum minna en áætlað var í upphafi.
Tekjur ríkissjóðs verða samkvæmt áætlun núna 11 milljörðum lægri eftir breytingar, en útgjöldin 13 milljörðum lægri. Þar vega t.d. þungt vaxtagjöld ríkissjóðs, sem verða um 1,4 milljörðum lægri skv. breytingartillögum.
„Þarna er um að ræða mjög miklar breytingar á fjárlögunum,“ segir Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki. „Forsendur þess voru brostnar þegar það var lagt fram og nú horfum við fram á tekjufallið í tengslum við nýja þjóðhagsspá fyrir næsta ár og varað hafði verið við. Því er mætt með þeim hætti að hræra áfram í ákveðnum stærðum, í stað þess að reyna að skapa auknar tekjur með því að örva atvinnurekstur í landinu eða skera niður á móti þessum útgjaldauka.“
Til þess að mæta útgjöldum eiga útgjöld á sviði félagsmála að dragast saman. Og nefnir Kristján framlög til öldrunarmála og lífeyristrygginga, ásamt því sem þarna fellur niður fjárveiting sem ætluð var til að mæta kostnaði vegna ríkisábyrgða og einnig lækka framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð og vaxtagjöld.
Leiðrétting:
Ranglega kom fram í fréttinni að lækka ætti að framlög til vegaframkvæmda og -viðhalds um 10 milljarða. Ekki stendur til að lækka framlögin heldur er verið að færa framlög til Vegagerðarinnar og samgönguverkefna undir einn og sama bókhaldslykilinn. Tilgangurinn er að einfalda ríkisbókhaldið. Fréttin hér að ofan hefur nú verið leiðrétt með tilliti til þessa. Beðist er velvirðingar á mistökunum.