Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir í pistli á heimasíðu félagsins að reglugerðir og samþykktir Framtakssjóðs Íslands hafa verið brotnar og að í sjóðnum séu ástunduð vinnubrögð sem hann hafði talið að ekki ætti að ástunda við uppbyggingu á „hinu nýja Íslandi.“
Guðmundur segir lífeyrissjóðina setta upp við vegg með að setja meira fjármagn inn í sjóðinn án þess að hafa getu til að leggja mat á fjárfestingarnar.
„Opið og gagnsætt ferli hefur ekki verið í gangi hjá sjóðnum og þeim sem hann er að eiga sín stærstu viðskipti við, þó báðir aðilar hafi boðað það í vinnureglum sínum,“ segir Guðmundur í pistli sínum og heldur áfram: „Peninga lífeyrissjóðanna á ekki að nota til að fjármagna verkefni þar sem ekki kemur til baka raunvirði þeirra með ásættanlegri ávöxtun. Hvorki til að reka atvinnubótavinnu né félagsleg velferðaverkefni, þeir peningar verða að koma frá öðrum. Peningar einstaklinga í lífeyrissjóðunum eru þeirra eign og heilagir og enginn á að geta ráðstafað þeim í annað en góða ávöxtun til að tryggja sjóðfélögum sem bestan lífeyri í framtíðinni. Það þarf ekki að ræða það meir varðandi eign minna umbjóðenda í lífeyriskerfinu, málið er útrætt af minni hálfu, um skyldur stjórna lífeyrissjóðanna.“
Pistill Guðmundar Ragnarssonar