Þjóðmálaumræðan í samfélaginu er ótrúlega neikvæð og sama má segja um umræðuna á Alþingi. Þetta sagði Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænn, á Alþingi í dag. „Ég vil minna þingið á að von og bjartsýni eru einnig verðmæti. Og við þurfum að tendra ljós í hjörtum þjóðarinnar.“
Þráinn sagðist vilja þverpólitíska sátt um bjartsýni og von. Hann beindi þeirri spurningu til formanns Sjálfstæðisflokks hvort hann deildi þeirri sýn ekki með honum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagðist vera glaður og bjartsýnn og sagðist vilja að þjóðin sé glöð og bjartsýn. Hann benti hins vegar á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu ekki til þess fallnar að veita mönnum nægilega mikla birtu eða trú á framtíðina. „Á meðan verðum við í stjórnarandstöðunni að benda á valkostina, benda á aðrar leiðir út úr myrkrinu og inn í þessa björtu framtíð ljóss og friðar sem háttvirtur þingmaður kallar eftir. “