Eignaleigufyrirtæki hafa samtals afskrifað kröfur á einstaklinga upp á 27 milljarða króna vegna bílasamninga og bílalána í kjölfar dóms Hæstaréttar. Heildarafskriftir krafna eignaleigufyrirtækja á einstaklinga vegna dómsins eru metnar 44,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökum fjármálafyrirtækja.
„Þar fyrir utan höfðu ríflega 5 þúsund einstaklingar nýtt sér það úrræði eignaleigufyrirtækja að lækka höfuðstól á erlendum bílalánum og bílasamningum gegn því að færa þau yfir í íslenskar krónur. Heildarlækkun vegna þessa úrræðis nam tæpum þremur milljörðum króna," segir í tilkynningu.
Afskriftir bílalána og bílasamninga vegna greiðsluaðlögunar eru metnar á 226 milljónir króna og sambærileg tala fyrir sértæka skuldaaðlögun eru tæpar 54 milljónir króna.
Samtals nema því afskriftir vegna bílafjármögnunar einstaklinga nú þegar rúmum 30 milljörðum króna.
Því er ljóst að þegar endurútreikningum á erlendum bílalánum og samningum lýkur verður heildarlækkun þeirra rúmlega 48 milljarðar króna, segir enn fremur í tilkynningu.
Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri SFF: „Þessar tölur sýna að afskriftir til einstaklinga og heimila nema nú 52 milljörðum króna vegna fasteignaveðlána og bílalána. Samtök fjármálafyrirtækja birtu í nóvember tölur yfir afskriftir fasteignaveðlána einstaklinga hjá bönkum og sparisjóðum og námu þær 22 milljörðum króna. Nú liggur fyrir að erlend bílalán og samningar hafa verið færð niður um 30 milljarða króna. Við teljum mikilvægt að þessar tölur séu öllum aðgengilegar."